Newsroom

Eygja milljarðafjárfestingar í 12 hótelum á Íslandi

Nýtt hótelfélag, Legendary Hotels and Resorts ehf., stefnir á að reka tólf hótel hér á landi áður en langt um líður. Félagið stefnir á að opna sitt fyrsta hótel á fyrri hluta næsta árs, að því er kemur fram í tilkynningu sem send var út í síðustu viku.

Legendary Hotels and Resorts hyggst byggja eða kaupa 12 hótel á næstu árum. Fyrirtækið segist ætla að mæta ströngum kröfum um lúxus og þægindi.

Hinn 32 ára gamli Letti Dmitrijs Stals er stofnandi og forstjóri Legendary Hotels and Resorts. Fram kemur að hann hafi 14 ára reynslu af hótel- og veitingageiranum.

„Nú þegar það versta af Covid-faraldrinum er að baki erum við bjartsýn um vöxt ferðaþjónustugeirans á næstu 5-10 árum og höfum borið kennsl á fjölda spennandi vaxtartækifæra innan Evrópu,“ segir Dmitrijs í tilkynningunni.

Boða milljarðafjárfestingu í fjölskylduhóteli á Þykkvabæ

Legendary Hotels and Resorts sendi frá sér aðra tilkynningu í dag þar sem félagið segist ætla að ráðast í „nokkurra milljarða króna“ framkvæmdir á nýju fjölskylduhóteli (e. family resort) á Suðurlandi, sem opnað verði í árslok 2023. Umbreyta eigi hóteli ásamt 50 hektara landssvæði. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að hótelið verði á Þykkvabæ.

Fyrirhugað sé að koma upp m.a. minigolf-velli, skautasvelli, borðtennisaðstöðu, leikfimisal, heilsulind, skotæfingarsvæði og bíósal. Á hótelinu gefist „örmagna foreldrum kostur á að slaka á án allra áhyggja“. Á svæðinu verði meira að segja veggur tileinkaður veggjakroti uppátækjasamra unglinga.

„Við öll hjá Legendary Hotels and Resorts viljum koma á framfæri þökkum til íslenskra sveitarstjórna fyrir að bjóða okkur velkomin og fyrir hjálpsamlega nálgun þeirra þegar kemur að þessu og öðrum verkefnum okkar víðsvegar um landið,“ segir Dmitrijs. „Við getum ekki beðið eftir að opna hótelið, sem verður í fremstu röð á heimsmælikvarða.“